Veltufjárhlutfall

Þið ykkar sem hafið hlustað á ársreikningaþátt Pyngjunnar vitið að Arnar er mikill áhugamaður um skammtímagreiðsluhæfi fyrirtækja. Eitt af mælikvörðum fyrirtækja á hæfi til að standa við skuldbindingar sínar til 12 mánaða (skammtímaskuldir) er Veltufjárhlutfall. 

Veltufjárhlutfall er í sjálfu sér ekki flókin formúla:

Veltufjármunir eru stærðir eins og birgðir (vörur á lager), handbært fé (ca$h), verðbréf (hlutabréf, skuldabréf eða sjóðir) og skammtímakröfur (þú átt inni ógreiddan reikning frá öðru fyrirtæki). Þessir veltufjármunir eru þó misseljanlegir. Af þeim er handbært fé kóngurinn.. Það er peningur sem þú getur reitt af hendi strax. Verðbréf er oft hægt að leysa út innan tveggja daga (gefið að þau séu ekki bundin) og því auðseljanlegar einingar. Annað er þó að segja um birgðir og skammtímakröfur. Það getur verið erfitt að selja frá sér birgðir á skömmum tíma og sömuleiðis getur það verið þolinmæðisverk að innheimta reikninga frá öðrum fyrirtækjum.
  

Veltufjárhlutfall getur gefið hinum almenna netbankakúreka allskyns vitneskju. Algeng þumalputtaregla er að hlutfallið skuli hanga yfir ásnum (>1) sem í raun þýðir ekkert annað en að fyrirtækið skuli eiga veltufjármuni sem duga fyrir skuldbindingum fyrirtækisins til næstu 12 mánaða. Prófnefnd viðurkenndra bókara er mjög hörð á því.

Það er þó ekki þar með sagt að gígantískt veltufjárhlutfall sé af hinu góða, heldur þvert á móti. Þið sem hafið fylgst með ársreikningaþætti Pyngjunnar vitið eflaust að birgðir er oft stór hluti af veltufjármunum fyrirtækja. Stundum of stór, en of hátt veltufjárhlutfall getur oft verið afleiðing lélegrar birgðastýringar sem dæmi. Þannig getur lítil matvöruverslun með of mikið af birgðum lent í því að vörurnar hreinlega renni út ef of mikið af matvælum eru keypt inn.  Sömuleiðis gæti fyrirtæki sem selur húsgögn þurft að leigja auka pláss undir birgðirnar sínar sem hrannast upp ef þær seljast ekki. Að endingu bitnar það auðvitað á rekstri fyrirtækisins. Svo það er æskilegt að binda ekki of mikið fjármagn í birgðum.

Birgðir geta þó verið af öllum stærðum og gerðum, allt frá mjólk sem rennur út á morgun og upp í skartgripi sem hafa endalausan líftíma og jafnvel hækka í virði á birgðartíma. Birgðirnar eru því misseljanlegar eftir fyrirtækjum og í tilfelli torseldra birgða getur því verið ákjósanlegri kostur að skoða Lausafjárhlutfall þegar meta á skammtímagreiðsluhæfi fyrirtækis, en það er efni í aðra speki!